top of page
Concrete Wall

Árið er 2005 og við erum 10 ára

Vorönn hófst þriðjudaginn 11. janúar. Byrjað var að æfa ný lög sem samin eru af Hróðmari I. Sigurbjörnssyni við ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur, sem samin eru sérstaklega fyrir Léttsveitina í tilefni af 10 ára afmælisári.

Léttsveitarkonur eru 125 við upphaf afmælisársins.

Blaðagreinar & viðtöl 

Dekur & djamm

Hið nú orðið árlega Dekur og djamm var haldið í Brokeyjarsalnum niður við höfn laugardaginn 5. febrúar. Eins og ævinlega skemmtu Léttur sér vel ásamt vinkonum, dætrum, systrum, mæðrum og ömmum. Veitingar voru að sjálfsögðu að hætti Létta og ýmis varningur var til sölu auk stórglæsilegrar tískusýningar frá Rögnu Fróða. Hanna Halldórs sá um veislustjórn og Hildigunnur hennar Jóhönnu söng ásamt hljómsveit. Ýmiss annar varningur var til sölu, svo sem skartgripir, töskur, aloa vera vörur og húfurnar hennar Margrétar formanns runnu út eins og heitar lummur. Stórskemmtilegt dekur og djamm með stuði og stöppu.

Langur laugardagur var haldinn í húsi Læknafélagsins 12. mars. Mikið æft, skemmtilegur dagur.

Árshátíð Versalir

Árshátíð Léttsveitarinnar var haldin í Versölum laugardaginn 2. apríl. Veislustjóri var formaðurinn okkar Þórkatla Aðalsteinsdóttir. Ýmislegt var til skemmtunar. Regína Ólafsdóttir, dóttir Sigrúnar Birgis söng einsöng við undirleik Öllu. 10 ára Léttsveitarannáll fluttur og sýnd brot úr væntanlegri kvikmynd um Ítalíuferð Léttsveitarinnar. Einar Gylfi, maður Bimbu, flutti erindi frá SalsAnon og þjóðsöngur Léttsveitarinnar kynntur. Hann er eftir Eygló Eyjólfsdóttur, bæði lag og texti. Síðan lék hljómsveitin Pónik fyrir dansi fram á nótt.

Léttsveitin hélt í Kolaportið 16. apríl - síðustu tökur fyrir kvikmyndina um okkur voru í Kolaportinu þar sem við seldum kökur og ýmislegt góss úr fórum kórkvenna, jafnframt renndum við okkur í gegnum nokkur lög, ágætur dagur þó salan hefði mátt vera öflugri.

10 ára afmælistónleikar Íslenska óperan

Afmælistónleikar Léttsveitarinnar, sem báru yfirskriftina "Hundrað raddir á tíu ára afmæli" voru haldnir fyrir fullu húsi fimmtudaginn 5. maí, uppstigningadag, kl. 16.00 í Íslensku óperunni. 
Á tónleikunum voru m.a. frumflutt fjögur lög eftir Hróðmar I. Sigurbjörnsson við ljóð Ingibjargar Haraldsdóttir sérstaklega samin fyrir Léttsveitina og lag og texti eftir Tómas R. Einarsson sem samið var í tilefni af 10 ára afmæli Léttsveitarinnar. 
Á tónleikunum söng Signý Sæmundsdóttir sópran og hljóðfæraleikarar auk Aðalheiðar voru Eggert Pálsson, slagverk, Ásgeir Steingrímson, trompet, Gunnar Hrafnsson, bassi og Stína bongó, congas og bongos. 


Efnisskrá tónleikana 


Léttsveitin fór í dagsferð til Stokkseyrar 22. maí og héldu eina tónleika þar í gömlu frystihúsi staðarins. Skoðuð voru söfn og ýmislegt fleira gert sér til dundurs og loks snæddur kvöldverður í Fjörborðinu, humarsúpa sem var algjör snilld. Sungið var yfir borðhaldi önnur lög sem bárust í samkeppnina um þjóðsöng Létta. Skemmtilegur dagur í alla staði.


Léttsveitarútilegan var aðra helgi júlímánaðar 8.-10. júlí í Galtalæk. Eitthvað var nú fámennara í útilegunni í ár en í fyrra en engu að síður góðmennt. Veðrið var eins og best verður á kosið og sólbrunnu þær fáu Léttur sem í útileguna mættu. Fámennið má trúlega að einhverju leyti rekja til þess að útilegunefndin ákvað að slá hana af eftir að hafa hlustað á veðurfregnir, en það er löngu orðið ljós að það er engan veginn hægt að treysta þeim og betra að fara eftir eigin tilfinningu.
Skemmtleg útilega þó fámenn hafi verið.


Fyrsta æfing á haustönn á þessu afmælisári Léttsveitarinnar var 13. september í húsi Fóstbræðra.

Léttsveitarkonur eru núna 121.



Þann 20. september var opnuð yfirlitssýning með pompi og prakt í skrifstofuhúsnæði Léttsveitarinnar í Fóstbræðraheimilinu þar sem farið er yfir feril sveitarinnar á 10 ára afmæli kórsins, en fyrsta æfingin var haldin á Ægisgötunni 19. september 1995. Nokkrum dögum síðar eða þann 22. september átti svo Léttsveitin 5 ára sjálfstæðisafmæli en Léttsveitin varð sjálfstæður kór þann dag árið 2000.

Kosið var í nefndir Léttsveitarinnar á æfingu þann 27. september og gekk það fljótt og vel fyrir sig.

Aðalfundur

Aðalfundur Léttsveitarinn var haldinn 4. október. Fráfarandi formaður Þórkatla Aðalsteinsdóttir flutti skýrslu stjórnar og gjaldkeri Willa G. Möller fór yfir ársreikninginn. Kosin var ný stjórn og úr stjórn gengu formaðurinn Þórkatla og varaformaðurinn Védís Skarphéðinsdóttir. Nýr formaður var kjörin Freyja Önundardóttir og nýjar í stjórn voru kosnar Herdís Eiríksdóttir og Sigrún Birgisdóttir.
 

Stjórn Léttsveitarinnar haust 2005 - haust 2006
Freyja Önundardóttir , 1. sópran, formaður 
Sigrún Birgisdóttir, 1. sópran, varaformaður 
Elísabet Grettisdóttir, gjaldkeri 
Willa G. Möller, 1. alt, aðstoðargjaldkeri
Herdís Eiríksdóttir, 2. sópran, ritari





 Kvikmyndin "Kórinn", sem er heimildamynd um Léttsveitina og ferð hennar til Ítalíu vorið 2004, var frumsýnd 11. október í Háskólabíói fyrir fullu húsi Léttsveitarkvenna og áhangenda þeirra. Björn Brynjúlfur Björnsson hélt stutt ávarp og einnig leikstjórinn Silja Hauksdóttir. Léttsveitin söng "Vegir liggja til allra átta" og þá hófst sýningin. Ótrúlega innileg, hjartnæm og skemmtileg mynd sem lýsir vel andanum innan kórsins og þeim dásamlegu konum sem hann skipa. Eftir sýninguna bauð borgarstjórinn Steinunn Valdís Óskarsdóttir Léttsveitarkonum og mökum þeirra til samsætis í ráðhúsinu. Morgunblaðið gaf myndinni fjórar stjörnur.


Léttsveitin hélt í sínar árlegu æfingabúðir helgina 14.-16. október og var að þessu sinni haldið að Skógum undir Eyjafjöllum. Það rigndi mikið en Léttur eru orðnar öllu vanar eftir rigninguna í Feneyjum hér um árið og fannst þetta nú ekki mikil rigning miðað við það. Æft stíft á laugardeginum og borðað mikið og vel. Skemmtidagskrá um kvöldið eftir matinn og sælar Léttur héldu heim á sunnudeginum með örstuttri viðkomu í Eden í Hveragerði.    

Stjórn Léttsveitarinnar haust 2005-haust 2006 frá vinstri:
Herdís, Elísabet, Freyja, Willa og Sigrún.

Dekur & djamm

Þann 12. nóvember hélt Léttsveitin sitt árlega Dekur og djamm, að þessu sinni í sal Bridgesambandsins í Síðumúla. Þemað að þessu sinni var að sjálfsögðu Kúba þar sem Léttsveitarkonur voru komnar hálfa leið til Kúbu. Ýmis varningur var á boðstólum og haldin var tískusýning og kjólauppboð og var m.a. slegist um svartan samkvæmiskjól sem Védís fékk að lokum á sanngjörnu verði. Við fengum örlitla salsakennslu fyrir Kúbuferðina og svo versluðum við skó og kerti og ýmislegt annað. Endalaust skemmtilegur dagur eins og alltaf.

Jólatónleikar Langholtskirkju

Jólatónleikar Léttsveitarinnar sem báru yfirskriftina "Jólin alls staðar" voru í Langholtskirkju fimmtudaginn 1. desember og laugardaginn 3. desember.
Til liðs við okkur fengum við söngkonuna Ragnheiði Gröndal ásamt bróður hennar Hauki Gröndal.
Aðrir hljóðfæraleikarar voru: Eyjólfur Þorleifsson, Kristín Jóna Þorsteinsdóttir, Tómas R. Einarsson og Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Vel sóttir tónleikar og skemmtilegir.

Efnisskrá tónleikana 

Umfjöllun og viðtal á Vísi des 2005

Fyrsti geisladiskur Léttsveitar Reykjavíkur kom út í fyrir jólatónleikana. Á diskinum er að finna lög frá ýmsum tónleikum Léttsveitarinnar í gegnum tíðina og fékk diskurinn góða dóma gagnrýnenda.

Lögin á diskinum:
 
1.Ég man það enn
2. Molly Malone
3. Léttsveitardans
4. Kukkani lumen alla / Hausttangó
5. Breathing space
6. Mas que nada
7. Krummi
8. Laugavegur um lágnættið
9. Niska banja
10. Vilja lied
11. Wien, du Stadt meiner Träume
12. Megi gæfan þig geyma
13. Lille lysefronne sang
14. Kveiktu ljós
15. Langferð
16. Í grænum mó
17. Við eigum samleið
18. Tondeleyjó
19. Dindirin
20. Al lado de mi cabana
21. You are the sunshine of my life
22. Bye bye Blackbird


Eins og fyrri ár söng Léttsveitin við messu á Þorlák í miðbænum og lauk þar með frábæru og viðburðaríku ári í sögu sveitarinnar..

bottom of page