top of page
2000 aðsend grein.jpg

Aðsend grein - Þuríður Pétursdóttir

2000 Umfjöllun.jpg

Umfjöllun um tóneika

Tónleikagagnrýni - Norrænt kvennakóramót

| Tónlist |3. maí 2000

TÓNLIST - Háteigskirkja

Íslenzk Satchmo og finnsk Mouskouri

NORRÆNA KVENNAKÓRAMÓTIÐ

ÞAÐ var nett uppákoma en heldur stutt, seinni tónleikar norræna kvennakóramótsins í Háteigskirkju s.l. föstudagskvöld, því söngurinn stóð aðeins um 45 mín. Bjuggust margir sjálfsagt við meiru, úr því ekki einn heldur tveir kórar áttu hlut að málum, hvor í sínu lagi, þ.e.a.s. Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur og síðan Oriveden Naislaulajat frá Finnlandi. Einnig kom á óvart umfjöllun tónleikaskrár um finnsku gestina, því hún var einungis á finnsku og ólíklegt að margir hérlendra tónleikagesta hafi haft teljandi gagn af henni.

Léttsveitin sem svo heitir er aðeins ein af mörgum sérdeildum í söngveldi Kvennakórs Reykjavíkur og ætti nafni samkvæmt að fást við "létta tónlist", hvað svo sem það nú er nákvæmlega. Það sem einum er létt er öðrum leitt, og hætt við að fyrstu lög kórsins frá endurreisnartíma hafi komið yngra fólki í leit að nútímahoppi og híi í opna skjöldu, þó að þeir sem kynnzt hafa söngvasjóði 16. aldar viti betur. Hvað getur t.d. verið léttara en hænsnagaggs-chanson Passereaus fyrir blandaðan kór, Il est bel et bon? Canzon Villanesca og Mascherata eftir da Nola áttu að vísu ekki alveg heima í þeim fjaðurvigtarflokki, en virtust samt heldur of hægt sungin. Sama gilti um Mon plaint soit entendu eftir Arcadelt, þó að rússneska lagið, Síðkvöld við sumarbústað, svifi um loft á hæfilegum hraða.

Eftir stílhreinan atómaldarsálm Karinar Rehnquist, Þú ei skalt óttast myrkrið, fór að birta til með sveifluslagaranum sígræna sem margir halda eftir Porter, I'm beginning to see the light, en hann var skráður á Ellington og félaga og tókst mjög vel. Það gerði líka lokalag Léttsveitar kvenna, What a wonderful world sem Louis Armstrong gerði frægt fyrir aldarþriðjungi, þar sem stjórnandinn sneri sér við og tók einsöngskafla í miðju laginu með lítilli fyrirhöfn, án þess þó að herma teljandi eftir urri Satchmos gamla.

Jóhanna Þórhallsdóttir hefur náð ágætum og heilsteyptum hljómi úr kórnum, og jafnvægið milli radda var sömuleiðis til fyrirmyndar. Það sem helzt ætti að standa léttleika hans fyrir þrifum er því fyrst og fremst stærðin. 60 manna kór verður alltaf 60 manna kór, og svigrúm til hrynrænna tilþrifa eftir því takmarkað. Aðalheiður Þorsteinsdóttir lék undir á píanó með látlausum þokka, en hefði kannski mátt gefa aðeins meira í annað veifið í fjarveru hrynsveitar.

Um finnska gestakvennakórinn var flest á huldu nema finnskulæsum áheyrendum. Hann kom fram á litríkum þjóðbúningum sem virtust benda til vesturhluta landsins eða Austurbotna, en annars varð maður lítils vísari um átthaga hans. Kórinn var fremur lítill, en söngur hans var snotur og óþvingaður, þótt ekki bæri hann mark atvinnumennsku, enda dapraðist hann stundum af tónsigi. Lagaröðin var önnur en fram kom af tónskrá og lögin flest á finnsku, en þó mátti bera kennsl á Tula tuulan tuli tuli tei, barnagælu[?] eftir Oskar Merikanto og Vem kan segla förutan vind. Verra gekk manni að nefna lag sem einkenndist af "effektum eins og vindhviðum, sjófuglagargi, hlátri o.s.frv., en það var óneitanlega sérkennilegt og vakti þónokkra hrifningu.

Í fallegu ókynntu aukalagi, sem eftir stílnum að dæma gæti verið grískt og fengið úr sarpi Nönu Mouskouri, söng kórstýran unga, sem jafnframt var píanóundirleikari, laglegan einsöng frá slaghörpunni með morgunlenzkulegu flúrívafi og hlaut fyrirtaksgóðar undirtektir tónleikagesta, enda meðal eftirminnilegustu atriða kvöldsins.

Ríkarður Ö. Pálsson

Fréttatilkynning apríl 2000

| Menningarlíf | 16. apríl 2000

Opin æfing hjá Léttsveit Kvennakórsins

LÉTTSVEIT Kvennakórs Reykjavíkur býður til opinnar æfingar í Ými á þriðjudagskvöld, kl. 20.30.

Margir kórar koma saman þetta kvöld en aðaltilefnið er koma kórsins Cantemus frá háskólabænum Lundi. Cantemus kórinn er blandaður óháður kór í Lundi stofnaður 1987. Í honum syngja um 30 manns og er stjórnandi kórsins Sigward Ledel organisti í St. Knuts kirkju í Lundi. Cantemus syngur bæði kirkjulega og veraldlega tónlist. Á þriðjudagskvöldið koma fram Stúlknakór Bústaðakirkju og Samkór Trésmiðafélags Reykjavíkur. Píanóleikari Léttsveitarinnar er Aðalheiður Þorsteinsdóttir.

Fráttatilkynning maí 2000

| Menningarlíf | 16. maí 2000

Sumartónleikar Léttsveitarinnar 

Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur ásamt Aðalheiði Þorsteinsdóttur, Wilmu Young og Jóhönnu V. Þórhallsdóttur stjórnanda.

LÉTTSVEIT Kvennakórs Reykjavíkur heldur sumartónleika í Langholtskirkju á morgun, miðvikudag, og föstudagskvöldið 19. maí kl. 20 bæði kvöldin. Tónleikarnir heita "Nú tekur hýrna um hólma og sker" og verða flutt verk eftir Leif Þórarinsson, sænskir, franskir og ítalskir söngvar, auk íslenskra og enskra dægurlaga. Aðalheiður Þorsteinsdóttir er píanóundirleikari kórsins og auk hennar leika með kórnum Wilma Young, Tómas R. Einarsson og Stína bongó. Einsöngvari er Björk Jónsdóttir.

Fréttatilkynning júní 2000

 | Menningarlíf | 20. júní 2000

Peningagjöf fyrir flutning laga Hallbjargar

LÉTTSVEIT Kvennakórs Reykjavíkur hefur borist kr. 70.000 að gjöf frá Jens Jörgen Fisher Nilsen vegna flutnings sveitarinnar á verkum látinnar eiginkonu hans, frú Hallbjargar Bjarnadóttur. Hann vill með þessu votta sveitinni þakklæti sitt fyrir að halda nafni hennar á lofti.

Léttsveitin var á söngferðalagi í maí sl. og flutti þar m.a. lög Hallbjargar í útsetningu Aðalheiðar Þorsteinsdóttur, píanóleikara kórsins.

Þingvellir - Tónleikaumfjöllun

 | Innlendar fréttir | 4. júlí 2000 

Vel heppnaðir gospeltónleikar

 

 

GOSPEL-tónleikarnir á aðalsviðinu á Þingvöllum sl. laugardagskvöld voru greinilega dagskráratriði sem höfðaði til margra.

Löngu áður en tónleikarnir hófust hafði mannfjöldi safnast saman í hlíðinni framan við sviðið og tekið mýkstu sætin en þeir sem seinna voru á ferðinni urðu að láta sér nægja að standa framan við og til hliðar við sviðið eða sitja á hörðum steinum. Sviðið sjálft var tilkomumikið og glæsilegt.

Á sviðinu voru Gospelsystur, Gospelkór Reykjavíkur og Gospelkompaníið, Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur og Vox Feminae undir stjórn Jóhönnu Þórhallsdóttur og Margrétar Pálmadóttur. Hljómsveitin var skipuð landskunnum tónlistarmönnum. Ásgeir Óskarsson lék á ásláttarhljóðfæri, Halldór G. Hauksson á trommur, Jóhann Ásmundsson á bassa, Eyþór Gunnarsson á hljómborð, Óskar Guðjónsson og Sigurður Flosason á saxófóna og sá síðarnefndi einnig congatrommur, Sigurgeir Sigurmundsson á gítar, Þórir Úlfarsson á hljómborð eins og tónlistarstjórinn sjálfur, Óskar Einarsson, sem útsetti og skrifaði niður tónlistina.

Tónlistin streymdi fram úr stórum hátalarastæðum til hliðar við sviðið og hljómburðurinn þótti vel heppnaður. Flutt voru þekkt trúarlög og einsöngvarar voru úr hópi þekktustu söngvara þjóðarinnar. Egill Ólafsson flutti frumsaminn sálm sem hann kallar Móðir jörð og einnig Amazing Grace sem á íslensku kallast Ég trúi á ljós. Bubba Morthens var mikið fagnað þegar hann steig á svið og flutti sitt framlag. Aðrir söngvarar sem komu fram voru Björgvin Halldórsson, Ellen Kristjánsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Hera Björk Þórhallsdóttir, Margrét Eir Hjartardóttir, Íris Guðmundsdóttir, Maríanna Másdóttir, Páll Rósinkrans og Þorvaldur Halldórsson.

Tónleikunum lauk um kl. 22 þegar allir þátttakendur tóku saman lagið O Happy Day og slík var spila- og söngvagleðin að það teygðist úr laginu meira en til stóð.

Picture2_edited.jpg

Margrét Pálmadóttir í mikilli sveiflu á gospeltónleikunum. Með henni á myndinni eru Björgvin Halldórsson, Egill Ólafsson og Margrét Eir Hjartardóttir.

Fréttatilkynning september 2000

| Menningarlíf | 8. september 2000

Fjórir sjálfstæðir kvennakórar

KVENNAKÓR Reykjavíkur sér nú ekki lengur um rekstur Vox feminae, Gospelsystra og Léttsveitar Kvennakórs Reykjavíkur heldur er hver hópur orðinn sjálfstæð rekstrareining með eigin lög, stjórn og fjárhag. Vox feminae, Gospelsystur og Léttsveitin verða óháðar Kvennakór Reykjavíkur og munu ekki lengur kenna sig við hann. Kórarnir munu áfram leigja saman æfingahúsnæði í Ými, tónlistarhúsinu við Skógarhlíð.

Vegna skipulagsbreytinganna var öllum stjórnendum og undirleikurum Kvennakórs Reykjavíkur sagt upp störfum í vor og hafa kórarnir nú hver um sig endurráðið sína fyrri stjórnendur.

Sigrún Þorgeirsdóttir hefur verið ráðin á ný sem stjórnandi Kvennakórs Reykjavíkur. Hún mun jafnframt kenna við kórskóla Kvennakórs Reykjavíkur eins og undanfarin ár. Sigrún mun einnig stjórna Senjoritunum, kór eldri kvenna innan Kvennakórs Reykjavíkur.

Léttsveitin, sem nú heitir Kvennakórinn, Léttsveit Reykjavíkur, hefur ráðið Jóhönnu Þórhallsdóttur að nýju sem stjórnanda. Og Gospelsystur og Vox feminae hafa ráðið Margréti Pálmadóttur að nýju.

Fréttatilkynning september 2000

| Menningarlíf | 14. september 2000

Léttsveitin í nýjum búing

Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur

STOFNAÐUR hefur verið nýr kvennakór í Reykjavík og hefur hann hlotið nafnið Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur. Fyrirrennari kórsins var Léttsveitin, sem tilheyrði Kvennakór Reykjavíkur. Þegar grundvöllur fyrir samstarfi Léttsveitarinnar við Kvennakórinn brast sl. vor ákváðu áhugasamir félagar hennar að halda áfram starfseminni og hyggjast halda formlegan stofnfund 22. september nk.

Stjórnandi Léttsveitarinnar verður sem áður Jóhanna Þórhallsdóttir og verður Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari. Eins og nafnið gefur til kynna leggur Léttsveitin áherslu á létta og skemmtilega tónlist, bæði íslenska og erlenda, s.s. þjóðlög, dægurlög, djass og gospel.

Léttsveitin mun á komandi starfsári halda tvenna tónleika, auk þess sem hún tekur að sér að koma fram við ýmis tækifæri.

Aðsend grein

21. október 2000 | Aðsent efni 

Kórar

Uppsagnir hjá Kvennakór Reykjavíkur

Þuríður E. Pétursdóttir

Margrét sagði upp störfum, segir Þuríður E. Pétursdóttir, en var ekki rekin.

UNDANFARNAR vikur hefur birst og heyrst í fjölmiðlum hvert viðtalið á fætur öðru við Margréti J. Pálmadóttur, kórstjóra.

Kjarni þess sem hún segir í þessum viðtölum er að ákveðinn einstaklingur hafi náð völdum í Kvennakór Reykjavíkur með það að markmiði að reka Margréti frá kórnum og eyðileggja hugsjón hennar um kvennakórasöng.

Hún hefur nafngreint undirritaða í því sambandi.

Upphafið

Til þess að eyða þeim misskilningi sem málflutningur Margrétar kann að hafa valdið er rétt að eftirfarandi komi fram. Kvennakór Reykjavíkur var stofnaður í janúar 1993. Fljótlega spruttu út úr honum litlir hópar kvenna sem ýmist vildu syngja meira en kórinn bauð upp á eða öðruvísi tónlist. Þessir hópar þróuðust yfir í sérstakan kór, Vox Feminae. Auk þess var stofnaður kór eldri kvenna, Senjoríturnar. Kvennakór Reykjavíkur rak einnig kórskóla og var aðsókn geysilega mikil. Námsmeyjar kórskólans vildu gjarnan halda áfram að syngja þegar skólanum lauk og var þá stofnaður nýr kór, Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur, árið 1995 sem Jóhanna Þórhallsdóttir hefur stjórnað frá upphafi.

Margrét sagði upp

Margrét Pálmadóttir stjórnaði Kvennakór Reykjavíkur til vors 1997, en þá sagði hún upp störfum. Þrátt fyrir að maður gengi undir manns hönd að fá hana til að hætta við varð henni ekki hnikað. Henni var haldið veglegt kveðjuhóf vorið 1997 þar sem hún var leyst út með gjöfum. Kórinn réð sér nýjan kórstjóra, Sigrúnu Þorgeirsdóttur, sem hefur stjórnað kórnum síðan. Margrét kenndi áfram við kórskóla Kvennakórs Reykjavíkur. Eins og áður var mikil aðsókn, svo að efni var komið í nýjan kór í byrjun árs 1998. Þá urðu Gospelsystur Kvennakórs Reykjavíkur til og stjórnar Margrét þeim enn þann dag í dag. Samanlagt eru það um 450 konur sem syngja í öllum kórunum.

Rekstur og ábyrgð

Kvennakór Reykjavíkur sá um rekstur og fjármál allra þessara kóra, réð kórstjóra og undirleikara og innheimti kórgjöld. Svo sem nærri má geta voru fjármálin flókin og mikill tími fór í rekstur og umsýslu. Undanfarin tvö ár hefur orðið vart óánægju með þetta fyrirkomulag. Byggðist sú óánægja bæði á því að konur voru komnar í kór fyrst og fremst til að syngja en ekki að standa í erfiðum rekstri og á samstarfsörðugleikum milli kóranna í tengslum við skipulag tónleika.

Við þetta bættist óánægja með að kórarnir lögðu ekki hlutfallslega jafnt til rekstursins. Bar þar hæst að einn af kórunum stóð ekki undir sér fjárhagslega og virtist ekki vera neinn vilji til að bæta úr því.

Lausnin

Síðastliðinn vetur komust konurnar í Kvennakór Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að engin nauðsyn væri á því að kórinn bæri ábyrgð á og sæi um rekstur og fjármál annarra kóra. Þar væru fullorðnar konur sem gætu vel séð um þessi mál sjálfar. Niðurstaðan varð sú að fulltrúar fjögurra kóra unnu í sumar að sameiginlegri samþykkt að nýju skipulagi, þar sem hver kór ber ábyrgð á og sér um rekstur sinn og fjármál.

Uppsagnir og endurráðning

Allir stjórnendur og undirleikarar kóranna voru á launaskrá Kvennakórs Reykjavíkur, en ekki hjá þeim kórum sem þeir stjórnuðu. Vegna ákvæða um gildistíma var nauðsynlegt að segja samningunum lausum í vor þegar hafist var handa við skipulagsbreytingarnar. Kórstjórum og undirleikurum var því öllum sagt upp í maí sl. Undirrituð hringdi í alla hlutaðeigandi og sagði þeim frá væntanlegri bréflegri uppsögn. Kórstjórarnir hafa allir verið ráðnir á ný til fyrri starfa, það er til að stjórna þeim kórum sem þeir stjórnuðu áður. Þar með talin margumrædd Margrét.

Staðan í dag

Kórarnir æfa allir í sama húsnæðinu, Ými, tónlistarhúsi við Skógarhlíð. Þeir hafa allir sömu stjórnendur og áður og starfsemin er óbreytt. Eina breytingin sem hefur orðið á rekstri kóranna er sú, að í stað þess að fimm stjórnarkonur í Kvennakór Reykjavíkur beri alla ábyrgð og hafi öll völd eru það nú tuttugu stjórnarkonur í fjórum kórum sem bera ábyrgð og hafa völd.

Ekki einstaklingar

Málið snýst því ekki um einstaklinga, hvorki Margréti Pálmadóttur né undirritaða. Heldur snýst málið um að leyfa sönggleði kvenna að njóta sín og öflugum kvennakórum að blómstra og þróast í friði.

Ein af þeim reglum sem prentaðar hafa verið á símaskrá Kvennakórs Reykjavíkur í gegnum tíðina er:

Við tölum ekki hver um aðra heldur hver við aðra.

Vonandi verður þessi regla höfð í heiðri í framtíðinni.

Höfundur er formaður Kvennakórs Reykjavíkur.

Picture1.jpg

Fréttatilkynning des 2000

| Menningarlíf |8.desember 2000

Með gleðiraust

KVENNAKÓRINN Léttsveit Reykjavíkur heldur jólatónleika í Ými, húsi Karlakórs Reykjavíkur v/Skógarhlíð á morgun, laugardag, kl. 16 og þriðjudaginn 12. desember kl. 20.

Yfirskrift tónleikanna er "Með gleðiraust" og munu léttsveitarkonur taka fyrir íslensk og erlend jólalög af sinni alkunnu sveiflugleði. Stjórnandi kórsins er Jóhanna V. Þórhallsdóttir og undirleikari Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Tómas R. Einarsson leikur á kontrabassa og Kristín Jóna Þorsteinsdóttir, Stína Bongó, leikur á slagverk.

Með Gleðiraust eru fyrstu tónleikar nýstofnaðs kórs en Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur starfar nú sem sjálfstæður kór.

Miðar verða seldir við innganginn og í hléi verður súkkulaði og piparkökur á boðstólum.

Umfjöllun des 2000

 | Höfuðborgarsvæðið | 22. desember 2000| 

Góð stemmning á Laugavegi 

ÞAÐ myndaðist óvenju góð stemmning á Laugaveginum sl.

ÞAÐ myndaðist óvenju góð stemmning á Laugaveginum sl. miðvikukvöld þegar félagar úr kvennakórnum Léttsveit Reykjavíkur og Álafosskórinn í Mosfellsbæ tóku lagið saman, óæft og við mikinn fögnuð gangandi vegfarenda sem þyrptust að til að hlýða á þessa óvenjulegu uppákomu. Þetta bar þannig til, að Léttsveitin hafði lokið við jólasöngdagskrá sína ofarlega á Laugaveginum og konurnar voru á leið til síns heima en námu staðar til að hlusta á Álafosskórinn sem þar var að flytja nokkur jólalög. Skipti engum togum að eftir að Álafosskórinn hafði lokið við flutning eins lagsins tóku konurnar, sem allar voru staddar handan götunnar, í gleði sinni að syngja það sama lag. Síðan stigmagnaðist þetta og lauk með samsöng kóranna en stöðugur bílastraumurinn lá á milli þeirra allan tímann. Að þessu loknu hélt Álafosskórinn upp Laugaveginn en konurnar niður, og eins og fyrr staðnæmdust þær eftir nokkra göngu og nú til að hlýða á leik brassbandsins úr Skólahljómsveit Vesturbæjar. Og fyrr en varði gerðist það sama og áður, að þær voru farnar að syngja og nú við undirleik bandsins.

Picture5.jpg
bottom of page